UPPÉTNA OG MISÞYRMDA, FAGRA LANDIÐ OKKAR

Já það var fagurt og frítt í árdaga og smjör draup af hverju strái, þangað til mannskepnan með sína frumstæðu sjálfbjargarþörf og græðgi, eignaði sér gósenlandið og fóru „í víking“ við gróðurinn strax í upphafi. Hjuggu og brenndu skógana og skepnur gengu þar sjálfala allt árið, svo helmingur skóglendisins var horfinn eftir aðeins fyrstu 200 árin. Síðan fór að síga á ógæfuhliðina og smátt og smátt fóru eyðingaröflin að ná yfirhöndinni þar sem alltaf var tekið án þess að gefa neitt í staðinn. Þessu höfðu menn á þeim tíma lítinn skilning á. Auðlindir jarðar voru í þeirra augum ótakmarkaðar. Eftir því sem aldir liðu rýrnuðu stöðugt landkostir og fátæktin jókst. En engin tók samt við sér í 11aldir, ekki fyrr en í óefni var komið og fjöldi jarða voru horfnar í sand og fleiri í hættu. Þá tóku nokkrir framsýnir menn þá ákvörðun að eitthvað yrði að gera í málunum. Sandgræðsla Íslands var stofnuð 1907 og einn maður var ráðinn í sandgræðsluna yfir sumarmánuðina. Margar voru úrtölurnar og efasemdirnar um að eyða peningum í svona vonlaust verk. Smátt og smátt fór þó að sjást árangur af því að minnka sandfokið með girðingum og melgresi. Miljónir tonna af gróðurmold, okkar dýrasta fjársjóði, hafa fokið á haf út og tínst eftir að gróðurinn var horfinn. Líflaus grjóturð og eyðimerkur þekja stór svæði á landinu sem enn valda miklu foki til skaða hvenær sem hreyfir vind á þurrum dögum. Þetta  kom berlega í ljós í sumar, þegar komu nokkrir þurrir góðvirðisdagar. Fokið var svo mikið sérstaklega á suðurlandinu að ekki sáust mörk úr lofti hvar strönd og sjór mættust. Greinar birtust um það í blöðum að landið væri að fjúka burt, en ekki sáust nein viðbrögð landsfeðranna að gagni frekar en vant er, og þó var 100 ára afmæli landgræðslunnar haldið í haust, með mikilli sjálfs ánægju ráðamanna yfir þeim mikla árangri sem landgræðslan hefði náð og þeim 14miljörðun sem hún hefði fengið í þessi 100 ár. Á sama tíma fá sauðfjárbændur 16 miljarða á næstu 6 árum til að auka framleiðslu á kjöti sem þegar er of mikil, fyrir utan landspjöllin sem af því hlýst.Satt að segja hefur landgræðslan þurft að vinna hálfgerða bakkabræðra vinnu alla tíð með bitvarginn stöðugt á hælunum, helmingur af fjárframlögum hennar frá ríkinu (okkur skattborgurunum) hafa farið, af illri nauðsyn í gaddavírsgirðingar utan um svæði sem tekin hafa verið til ræktunar. Og stundum hafa bændur fengið þau afhent aftur til beitar, fyrir sínar rollur, þegar við vorum búin að rækta þau upp eftir rányrkjuna, á okkar sameiginlega landi. Er ekki löngu kominn tími til að hlífa þeim skemmda náttúrulega gróðri sem eftir er, og menn hafi sínar skepnur á sinni ábyrgð og eigin landi og beri sjálfir kostnað af endalausri offramleiðslu sem er óforsvaranleg bæði vegna landspjalla og kostnaðar. Bændur eruð þið ánægðir með að vera landníðingar? Rányrkja er landníðsla og þannig er búskapur ykkar stundaður enn í dag. Allar siðmenntaðar þjóðir í kring um okkur eru fyrir löngu síðan farnar að stunda ræktunarbúskap með sínar skepnur í girðingum.Oft halda talsmenn ykkar því á lofti að bændur græði landið, landgræðslan hefur komið á stofn átaki með aðstoð bænda við uppgræðslu, þeir fá grasfræ og áburð gefins og leggja til vinnu á sinni eigin jörð handa sínum eigin skepnum. Ef þeir vinna landgræðslustörf með landgræðslunni þó það sé til að græða uppnagaða beitarhaga eða afréttalönd fá þeir borgað fyrir sína vinnu eins og hverjir aðrir daglaunamenn.Við erum að verða að athlægi fyrir að láta éta undan okkur landið með frumstæðum hirðingjabúskap, en þykjumst geta kennt öðrum landgræðslu með okkar bakkabræðra aðferð. Einhvern tíma átta þeir sig á því hvaða vit-leysa hér er í gangi og það ennþá á tuttugustu og fyrstu öldinni. Henni er haldið við lýði af skammsýnum eigin hagsmunaseggjum sem taka ekkert tillit til framtíðarinnar, á þessu verst farna landi af búsetu. Flýtur á meðan ekki sekkur.Bændur og ráðamenn, sefur samviskan værum svefni?Hvar eru samtökin fagra Ísland? og önnur náttúruverndar félög, eru þau blind á öðru auga. Sjá þau aðeins reykinn úr fáeinum álverum sem skapa þó þjóðfélaginu tekjur og vernda aðra jarðarbúa frá miklu meiri mengun, en eru blind á orsakavald gróðureyðingarinnar á stærsta hluta landsins. Og það á meðan sand og moldskaflar eyða gróðri og stöðugt stækka eyðimerkurnar, sem eru þó þegar viðurkenndar sem þær stærstu manngerðu sem þekkjast. Óbætanlegar náttúrugersemar hverfa smá saman undir sand, þrátt fyrir ótrúlegan dugnað landgræðslunnar. Hluti af Dimmuborgum er horfinn í sand og stöðugt fýkur í Ódáðahraun og Lakagíga svo dæmi sé tekið. Þetta er brot á alþjóðasamþykkt sem samþykkt var á Ríó ráðstefnunni um það að engin þjóð hefði rétt á að eyðileggja náttúruundur sín. Það kæmi öllum heiminum við. Við felum alltaf skömmina og skrökvum því að öðrum þjóðum að við séum til fyrirmyndar.Eru þessir skammtíma hagsmunir þess virði? Afkomendur okkar munu krefjast svara. HVERS VEGNA FÓRUÐ ÞIÐ SVONA MEÐ GRÓÐUR LANDSINS ÞÓ ALLIR SÆJU HVERT STEFNDI?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband