Um sauðkindina og landið - gömul grein

Sigríður Laufey Einarsdóttir svarar grein minni um 16.000.000.000 milljarða framlag til sauðfjárframleiðslu í Morgunblaðinu fyrir skömmu. Hún vill að fleiri sjónarmið komi fram, sem er auðvitað sjálfsagt. Ég bendi á þá staðreynd að búskaparhættir okkar í gegnum aldirnar hafa gert þetta land  að skemmdasta landi af völdum búsetu sem þekkist. Nú á tímum þegar mengun andrúmsloftsins er orðið vandamál í heiminum, leggjum við til óhemju koltvísýring úr skemmdu gróðurlendi sundurgröfnum mýrum og rofalandi. Gróðurinn á viðkvæmum beitarsvæðum nær varla að stinga upp kollinum á vorin, fyrr en 1.000.000 skepnur eru farnar að rífa hann í sig, svo hann nær ekki að binda kolefnið. Þetta eru nýjustu rannsóknir á vegum Búnaðarháskólans.1.000 tonn af kjöti voru afgangs í haust. Þessar skepnur eru búnar að vera að naga viðkvæman fjallagróðurinn allt sumarið til einskis, er það ásættanlegt? Er það furða að það sé ofvaxið skilningi okkar skattborgara að það þurfi að setja alla þessa milljarða í að styrkja og auka sauðfjárræktina, þegar hún þyrfti að minnka og miðast við neyslu innanlands. Í þessum nýja samningi er líka styrkur til nýliðunar í greininni sem myndi þýða meiri framleiðslu. Offramleiðslan rýrir bæði landið og ríkissjóð, og því væri hagkvæmara að einhverjir sauðfjárbændur snéru sér heldur að öðrum verkefnum. Það kæmi bæði stéttinni og okkur hinum til góða. Sigríður vitnar í grein sem Þórarinn Þórarinsson fyrrverandi skólastjóra á Eyðum skrifar um harða lífsbaráttu hér á öldum áður. Þar segir: ”Þjóðin lifði, en skógurinn dó”. Lífsbaráttan var hörð það vitum við. Í dag höfum við enga afsökun fyrir því að vera í stöðugu stríði við landið með rányrkju og arðræna það. Ég vona að Sigríður skilji nú betur hversvegna ég, og fleiri, séum undrandi á þessu peningaaustri í framleiðslu sem þegar er of mikil og skaðar landið að óþörfu.Ég skora á ykkur kjósendur, í vor, að gefa þeim flokki sem lofar að taka á þessu alvarlegasta vandamáli okkar gróðureyðingunni atkvæði ykkar, hvað svo sem hann heitir, því öll vandamál önnur eru hégómi hjá henni. Herdís Þorvaldsdóttir, leikkona ogf.f. formaður Lífs og Lands

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég er fyrrverandi rollubóndi og sauðkindin er mitt uppáhald með öllum þeim afbigðum sem tilveru hennar fylgja í þessu landi.

Sauðfjárbóndinn er kóngur og jarl.

Hinsvegar ber ég engan sérlegan hlýleika til spekúlantanna sem kaupa upp jarðir og beitarlönd til að reka þar verksmiðjur fyrir kjötframleiðslu og mjólk.

Og ég er fullkomlega andvígur því að svona gerpi hirði milljónatugi eða milljarða af almannfé til að þjóna heimskulegum mannalátum.

Íslenski bóndinn á að ganga á gúmmískóm með markaskrána í vasanum. Hann á að vera drjúglátur á yfirbragð og þó viðfelldinn í tali og hann á að bjóða í nefið. 

Árni Gunnarsson, 9.6.2007 kl. 21:44

2 Smámynd: Þórir Kjartansson

Ágæta Herdís.  Ég held að þú áttir þig enganveginn á þeirri geysilegu fækkun, sem orðið hefur á sauðfé í landinu á undanförnum árum.  Landrof af völdum ofbeitar er nánast ekki til og á mjög stórum landsvæðum hefur jörð gróið upp algerlega af sjálfu sér.  Uppblástur er auðvitað til enn,  en það er minnst af völdum sauðkindarinnar.

Þórir Kjartansson, 9.6.2007 kl. 21:45

3 Smámynd:  Valgerður Sigurðardóttir

Hvernig væri nú að fara að kynna sér nýjar staðreyndir um uppgræðslu og landbúnað? Og komast t.d. að því að sauðfé hefur fækkað um nálægt helming frá 1980. Allar þessar tölulegu staðreyndir eru aðgegnilegar á internetinu, t.d. á bondi.is og landbunadur.is. Auk þess eru fjölmargir bændur að græða upp landið í samvinnu við Landgræðsluna. Svo hefur orðið talsverð fjölgun á hrossum, sem er mestan part í eigu þéttbýlisbúa, ekki fara hestar vel með landið. Hugsa að ykkur Margréti myndi blöskra vel nagað beitarhólf hjá hestum, þar sem þeir nánast éta skítinn úr sér, en kannski er það flott, spyr sá sem ekki veit.

Valgerður Sigurðardóttir, 10.6.2007 kl. 21:33

4 identicon

Þessir tveir bændur, sem svarað hafa þinni frábæru grein, á neikvæðu nótunum, eru svolítið mikið úr takti við tímann. Málið er að fé á fjöllum, á sumrin, er ekki bara ein milljón, heldur ein og hálf, plús allt hrossastóðið, sem er örugglega komið langt yfir tvö hundruð þúsund. Öll afbeit á viðkvæmum gróðri þessa lands er einfaldlega ofbeit. Ekkert flóknara en það. OFBEIT. Og beit í þverrandi kjarri þessa lands er bara nauðgun á gróðri landsins. Í Borgarfirði er enn stunduð vetrarbeit á götóttu landi, í kjarri,  alveg út nóvember og jafnvel lengur. Hættum að nauðga gróðri þessa lands og hefjum nútíma búskap í beitarhólfum. Má ekki gleyma því að ég fagna öllum ríkum köllum sem gera bændur "milla" með því að kaupa af þeim jarðir á uppsprengdu verði og þar með losa okkur undan því að borga með þeim í formi beingreiðslna, sem er bara ekkert annað en svona meðlög..........................já, bara í mínum huga, svona ómagagreiðslur. Hem,,,,,,,,,,svo kalla þeir sig kónga og jarla!!!!!!! Hem!

Margrét Jónsdóttir (IP-tala skráð) 10.6.2007 kl. 21:40

5 identicon

Kæra Valgerður!

Við vitum allt um þetta frábæra framtak Landgræslunnar og bænda við uppgræðslu og skógrækt, en það er einfaldlega ekki nóg. Við erum heldur ekkert að saka núverandi bændur um ástand gróðurs í dag...............það er einfaldlega það verð sem við urðum að borga fyrir að hafa þraukað þessa vist í þessu landi í yfir 1100 ár. En nú eru nýjir tímar og ný hugsun. Við vitum um bágborið ástand landsins og nú verðum við bara að fara að taka á honum stóra okkar og bæta fyrir gamlar syndir. Öll þau þúsundir tonna af jarðvegi sem árlega feykjast út í hafsauga er nokkuð sem við verðum að fara að gaumgæfa vel. Hvað er til ráða? Jú, eitt ráðið er að stýra beit með því að  friða allar brattar hlíðar þessa land, svo og allt kjarr, og  hafa skepnur í beitarhólfum. Síðan að margfalda upprgæðslu. Margfalda segi ég. Þú veist að við landnám þakti gróður þetta land um 75% en í dag aðeins 25%. Og það er mjög götótt gróðurhula. Aðeins 4 - 5% teljast heil gróðurhula..............tún og engi og kannski einstaka heimahagar.

Bestu kveðjur norður til þín og þinna

Margrét

Margrét Jónsdóttir (IP-tala skráð) 10.6.2007 kl. 22:01

6 identicon

Valgerður!

Gleymdi einu mjög mikilvægu, en það eru beitarhólf hesta..................sem og kinda. Að sjálfsögðu þarf að fylgjast með beitarhólfum fyrir allar skepnur. Það er alls ekki nóg að henda þeim inn í eitthvert hólf og  láta það svo bara gott heita. Það er mikill misskilningur. Fylgjast þarf með skepnunum og færa þær til á milli hólfa........rétt eins og alvöru hirðingjar gera enn í dag. Aldrei að ofgera jörðinni. Alltaf að fylgjast með og færa skepnurnar til. Ég sé því miður of mörg ljót beitarhólf hrossa...............nær alltaf er ég ek um heimahérað mitt, Borgarfjörðinn. Því miður. Og ef ég skil þig rétt þá sérð þú líka svoleiðis fyrirbæri í þinni heimabyggð. það er bara synd og ætti alls ekki að viðgangast.

Bestu kveðjur,

M;argrét

Margrét Jónsdóttir (IP-tala skráð) 10.6.2007 kl. 22:13

7 identicon

"Ég held að þú áttir þig enganveginn á þeirri geysilegu fækkun, sem orðið hefur á sauðfé í landinu á undanförnum árum.  Landrof af völdum ofbeitar er nánast ekki til ..." (Þórir Kjartansson)

 Þótt fjöldi sauðfjár í landinu sé lægri í dag en hann var á þeim árum þegar sauðfjáreign landsmanna náði hámarki (1974-78) er langt frá því að sauðfjárstofninn sé í einhverju sögulegu lágmarki. Hann er ámóta og hann var á árunum eftir seinna stríð, en þá hafði hann ekki værið stærri frá landnámi.

Hnignun og stöðnun tötrum klæddra gróðurlenda landsins heldur áfram víðast hvar, því víðast hvar fer fram stjórnlaus og ósjálfbær beit á illa grónu landi. Enn hefur aðeins tekist að klæða fáein prómill af landinu skógi. Á meðan svo er, er íslenskur eldfjallajarðvegur jafn berskjaldaður gagnvart vind- og vatnsrofi og fyrrum, og vítahringurinn heldur áfram.

Ég sé einu lausnina fyrir "sjálfbæra sauðfjárbeit" fólgna í því að fara út í stórátak í skógrækt á íslenskri útjörð. Þegar þeir skógar verða vaxnir upp fyrir seilingarhæð sauðfjárins, verður fyrst hægt að réttlæta sleppingu sauðfjár inn á þessar lendur. Þá fyrst verður hægt að markaðssetja íslenskt kindakjöt sem "vistvæna afurð".

Vésteinn Tryggvason (IP-tala skráð) 11.6.2007 kl. 15:48

8 identicon

"Auk þess eru fjölmargir bændur að græða upp landið í samvinnu við Landgræðsluna." (Valgerður)

Á hverju ári er veitt, af fjárlögum íslenska ríkisins, tæplega 40 milljónum króna í verkefnið "Bændur græða landið" (en því verkefni er stýrt af Landgræðslu ríkisins). Fer sá stuðningur í áburðar- og grasfrædreifingu á beittan úthaga, svokallaða "gróðurstyrkingu".

Til samanburðar er veitt, af sömu fjárlögum, 3,2 milljörðum króna í "Samning um framleiðslu sauðfjárafurða" (þ.e., beingreiðslna til sauðfjárræktar). Með öðrum orðum er veitt áttatíu sinnum hærri upphæð í beinan stuðning við sauðfjárbeitarbúskap en í  "gróðurstyrkingu" á beittu landi.

Til samanburðar fara til skógræktar og landgræðslu af fjárlögum samtals 1,2 milljarðar króna, en það er ríflega þriðjungur af því sem fer í beinan stuðning við sauðfjárrækt. Stærstur hluti þess fjármagns er nýttur á landsbyggðinni, einkum af bændum, sem er auðvitað hið besta mál fyrir viðhald byggðar í dreifbýli.

Þessar tölur um opinberan stuðning endurspegla væntanlega kröfur og væntingar íslenska samfélagsins: við skattgreiðendur leggjum þrisvar sinnum meiri áherslu á að halda uppi sauðfjárstofninum í landinu (sauðfjárrækt) en t.a.m. "trjástofnum" (skógrækt). Eða hvað?

Heimild: Fjárlagavefurinn

Vésteinn Tryggvason (IP-tala skráð) 11.6.2007 kl. 16:24

9 Smámynd:  Valgerður Sigurðardóttir

Þeir sem kaupa jarðirnar af bændum fá oftast nær beingreiðslurnar með. Las einhversstaðar um daginn að líklega hefði landið verið þakið að 1/3 með skógi, eða er ekki smá munur á skógi og kjarri? Annars voru Íslendingar svo lágvaxnir í þann tíð að sæmilegur viðarrunni hefði verið sem skógur í þeirra augum.

Bændur leggja til vélar og vinnu við að dreifa áburðinum og fræinu, ekki flýgur það sjálft úr pokunum.  Auk þess eru margir að fara með afgangs heyrúllur og dreifa þar sem jarðvegur er veikur fyrir.

Og Margrét mín, leyfðu vinkonu þinni að hafa orðið á sinni síðu, við erum löngu búnar að ræða málin að ég held nokkurn vegin í botn. Svo er bara að muna það að hugsa eins og kind

Valgerður Sigurðardóttir, 11.6.2007 kl. 21:06

10 identicon

Cara Valgerður!

Víst höfum við marga hildina háð í gegnum tíðina, en alltaf í fyllsta bróðerni. En allir hinir vita ekkert um hvað okkur hefur farið á milli. Þú hefur t.d. upplýst mig um fjölmargt sem fram fer í sveitum landsins sem gert hefur mig mildari í framsetningu á máli mínu. Er það bara ekki gott mál, sko svona duggunarlítið jákvætt?

Þess vegna ætla ég að voga mér að koma með smávegis athugasemd við síðustu innkomu þinni, nefnilega þessari um þessa ríku sem kaupa bændur úr ánauð. Þú segir þeir kaupi kvóta og fái þar af leiðandi beingreiðslur. Já,já, eru þeir þá ekki þar með að halda uppi byggð í landinu? Það liggur í augum uppi að haldi þeir áfram búrekstri með sínum  kvóta og beingreiðslum þá sé bara allt í góðum málum.  Allt við það sam og líklega bara allir ánægðir, eða hvað?

Það eru jú margar hliðar á öllum málum.

Bestu kveðjur,

Margrét Jónsdóttir

Margrét Jónsdóttir (IP-tala skráð) 13.6.2007 kl. 19:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband