Áratuga blekking og fjáraustur - gömul grein

               Loksins er búið að viðurkenna það opinberlega að útflutningur á kjötinu okkar til Bandaríkjanna borgar sig ekki. Af kröfu landbúnaðarforustunnar er búið að eyða tvöhundruð milljónum í þetta mislukkaða átak. Ráðinn var sölufulltrúi sem er búinn að fá 25 miljónir á ári í um það bil átta ár til að reyna að fá Bandaríkjamenn til að kaupa offramleiðsluna og borga fyrir hana sem lúxus vöru, sem við höldum að hún sé, af því að við höfum ekki haft annað val sjálf, fyrr en nýlega. Löngu var fyrirsjáanlegt að þetta var ekki hægt, það tók endalausan tíma, ótal ferðir til Bandaríkjanna með kokka héðan til að fá þá til að smakka og boðsferðir hingað til að telja þeim trú um að þessi afurð væri vistvænt framleidd sem var skilyrði af þeirra hálfu fyrir kaupunum. Þar hafa þeir verið vísvitandi blekktir. Fé sem alið er sumarlangt á viðkvæmum og rýrnandi úthaga og fjallagróðri landsins er ekki vistvæn afurð. Hún er rányrkja þar sem tekið er án þess að gefa í staðinn. Svona höfum við þrautpínt þetta blessaða land okkar í gegnum aldirnar, og gerum enn, því er gróðureyðingin jafn geigvænleg og óviðráðanleg í dag og dæmin sýna.Hvers vegna framleiða meira kjöt en við þurfum til innanlands neyslu þegar það veldur bæði ríkissjóði og landinu skaða? Til hvers eru stjórnvöld? Munu afkomendur okkar halda  að ráðamenn í dag hafi ekki verið með fulla rænu að taka ekki til hendinni þegar þeir sáu hvert stefndi með gróðureyðingu og uppblástur á landinu? Einu viðbrögðin eru endalaus fjáraustur í viðgerðir á  skemmdu landi, meðan náttúrulegi gróður landsins kjarr, lyng og blómgróður eru á undanhaldi. Það er ekki við landgræðsluna að sakast. Hún gerir allt sem hún getur við þessar vonlausu aðstæður til að geta haft undan eyðingaröflunum á meðan 1.000.000 fjár og tugþúsundir hesta nagar gróðurinn allt sumarið, stjórnlaust frá fjalli til fjöru. Einnig er hrossastóð á veturna á útigangi líka og krafsa þá og naga niður í rót til að fá eitthvað í svanginn, blessaðar skepnurnar. Ekkert ríki, a.m.k. í Evrópu, hefur farið eins illa með landið sitt og við, og erum við að verða fræg fyrir sinnuleysið og sofandaháttinn á því að viðurkenna ekki skömmina en velta bara vandanum, sem sífellt verður óviðráðanlegri, á herðar næstu kynslóða. Þvílíkt kjarkleysi ráðamanna! Hvenær birtist bjargvætturinn og hetjan sem minnst verður í sögunni um ókomna tíð? Herdís ÞorvaldsdóttirLeikkona og f.v. formaður Lífs og Lands

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þetta er átakanleg en sönn lýsing. Ég hef séð hvernig hestar hafa troðið landið undir hófum sínum mjög víða. Eitt sinn varð ég vitni að því hvernig ákveðinn blettur, þar sem hestar voru girtir af, breyttist úr grasgefnu svæði í drullusvað.

Það hafði verið settur upp skjólveggur fyrir hestana til að skýla sér í vondum veðrum. Skiljanlega voru þeir mest í kringum skjólvegginn. Afleiðingin varð sú að svæðið í kring varð eitt moldarflag.

Það verður að draga stórlega úr búfjárræktun, t.d. með því að afnema beingreiðslur. Það er fáránlegt að skattgreiðendur séu að niðurgreiða eyðileggingu á landinu.

Theódór Norðkvist, 17.6.2007 kl. 01:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband