Gerspillt land af manna völdum, og því mengunarverksmiðja.

  Hernaðinum gegn landinu er haldið áfram sleitulaust. Ísland er land í tötrum. 65% af upphaflegu gróðurlendi er horfið, og afgangurinn víða illa á sig kominn. Þegar gróðurinn hverfur, hverfur kolefnisbindingin og súrefnismyndunin. Í stað þess hefst rotnun lífrænna efna í jarðveginum, og þaðan streyma síðan gróðurhúsalofttegundirnar. Um 77% af mýrlendinu erum við búin að eyðileggja. Þegar mýrarnar eru ræstar fram breytast þær í mikilvirka verksmiðju og afurðin er gróðurhúsalofttegundir; koltvísýringur, metan og tvíköfnunarefnisoxíð. Rannsóknir sýna að þessi losun er veruleg, og umtalsverð af þeirri síðastnefndu en hún er 310 sinnum skaðlegri en koltvísýringurinn.Rannsókn á mengun frá þessu skemmda landi stendur yfir í samvinnu við háskólann í Gautaborg. Það skyldi þó ekki vera að mengunin úr þessu skemmda landi sé meiri en frá allri annarri starfsemi okkar. Þessi eyðilegging sem er nú að vitnast um að veldur svona mikilli mengun á eftir að breyta forsendum í samkomulögum þeim sem við rituðum undir, Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna og Kýoto-bókuninni, þar sem skylda okkar var að greina frá allri mengun af manna völdum. Ekki bara frá bílum, skipum, stóriðju og öðru slíku. Af hverju er aldrei minnst á þessa vá þegar talað er um mengun sem við völdum? Er þessi smán okkar, hvernig við förum með landið, feimnismál vegna samvisku getulausra og hræddra stjórnmálamanna við að þurfa að takast á við vandann. Geta þeir með góðri samvisku endað sinn stjórnmála feril sáttir við ástandið. Þeir höfðu þó tækifæri til að vinna að því að bjarga landinu okkar. Bjarga því frá að missa enn meira af þeim tætingslega náttúrugróðri sem ennþá er óuppétinn eða niður traðkaður af allt of mörgum skepnum, af óþörfu og öllum til skaða?Stjórnlaus beit og offramleiðsla, af hverju? Spyrji hver sína samvisku. Hvað eru gróður- og náttúruverndarvinirnir sem hrópa hæst um verndun náttúrunnar að gera í þessu stærsta vandamáli landsins, gróðureyðingunni. Framtíðarlandið, Vinstri grænir o.f.l. hrópa allir í kór: „stöðvið virkjanir“, sem eru þó aðeins á nokkrum smá blettum á landinu, en minnast aldrei á að stöðva verði uppblásturinn og rányrkjuna, sem skaðar allt landið og veldur jafnvel meiri mengun en álverin. Þvílík blinda og hræsni. Er ástæðan e.t.v. sú að þeir sem hafa stundarhagsmuni af rányrkjubúskapnum standa vörð gegn öllum umræðum og breytingum á ástandinu? Hver gæti ástæðan verið önnur þar sem þetta þjóðþrifamál kemur þó öllum öðrum landsmönnum til góða? Og að lokum vil ég vitna í sérfræðing máli mínu til stuðnings:„Meginorsök uppblástursins er hvorki að finna í eldsumbrotum né versnandi loftslagi. Maðurinn og sauðkindin eru megin orsök þess óhugnanlega uppblásturs sem án afláts hefur rýrt vort dýrmæta gróðurland í Íslands þúsund ár.“ - Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur 1961. Úr bók Landgræðslunnar, Græðum Ísland 1987. Herdís Þorvaldsdóttir,leikkona og frv. form. Lífs og lands

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vatnsmýrin

Já ensog talað útúr mínu hjarta. Er þá ekki best að byrja á heimahögunum og skila Vatnsmýrinni í upprunalegt horf?

Óvitlaus hugmynd! auðvitað eru einhverjir aurapúkar og eiginhagsmuna seggir sem myndu eitthvað seigja, skítt með þá.

Vatnsmýrin er málið hún er nærtækust það er bara fletta malbikinu ofan af mýrinni fylla uppí alla skurði og byrja dæla vatni í mýrina

Ekki þyrfti að hafa áhyggjur af sauðkindinni!

Þetta væri svona mýri í borg. Borgarbúar gætu upplifað mýrina,fuglalífið, steminguna hún gæti laðað að fullt að ferðamönnum sem sætu í kringum mýrina með kíkir að kíkja á fuglalífið og þann einstaka gróður sem mýrin hefur uppá að bjóða

Borgarbúar gætu þannig sýnt gott fordæmi í endurheimtingu á "landgæðum"

Bestu kveðjur

Borgþór

Borgþór (IP-tala skráð) 30.4.2008 kl. 12:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband