Landbúnaðarháskóli Íslands í lausu lofti!

Menntastofnun heillrar stéttar landbúnaðarins sem kennir þeim allar kúnstir við að nýta landið sér til framdráttar,nema þá að það sé glæpur gagnvart framtíðinni að stunda rányrkju á stórskemmdu landinu til skaða í stað þess að stunda ræktunarbúskap, hlýtur að vera blind á samtímann.

Hún hangir í lausu lofti, því grunninn vantar í bygginguna, landið sjálft sem vegna meðferðar okkar á því missir stöðugt meira af sinni upphaflegu gróðurþekju. Þessi stofnun er samt ótrúlega ánægð með sjálfa sig þrátt fyrir þessa skömm og er stöðugt að telja okkur trú um hvað hér sé allt til fyrirmyndar og stofnar jafnvel til námskeiða fyrir vesalings útlendinga sem eiga við uppblástur og gróðureyðingu að stríða til að kenna þeim okkar aðferð. Við með stærstu manngerða eyðimörkina,og verst farna land af búsetu vegna rányrkju sem við stundum enn ætlum að kenna þeim.

Er þetta ekki brandari á heimsmælikvarða?

Við erum  þvert á móti til aðhláturs og varnaðar þeim sem komast að því ,að við búum hér eins og bakkabræður,eyðum offjár í að hamla gegn eyðingaröflunum á meðan á aðra milljón fjár og a.m.k.á annað hundraðþúsund hrossa eru á lausagöngu, milli fjalls og fjöru og eyðileggja meira en vinnst.

Í dag er það ekkert einkamál okkar, hvernig við förum með landið, það kemur öllum heiminum við. Þess vegna hafa alþjóða samtök um gróðurvernd, sett lög og reglur um það að ekki megi skaða eða rýra gróðurlendi með nýtingu. Við höfum tekið þátt í ráðstefnum og skuldbindingum um náttúruvernd, en hvergi staðið við þær þó þörfin sé hvergi brýnni. Eina ráðið til að ýta við okkur að losna úr þessum gömlu viðjum,virðist vera að vekja athygli alþjóðasamtaka á ástandinu svo við fáum áminningu frá þeim, um að tími sé komin til að girða af búpeningin í landinu í staðin fyrir fólkið eins og hingað til og stunda ræktunar búskap eins ag aðrar siðmenntaðar þjóðir.


ENGIN SÁTT GETUR VERIÐ UM NÁTTÚRUVERND,MEÐAN RÁNYRKJA ER STUNDUÐ.

Umhverfisráðherra segir í grein um umhverfismál ,í fréttablaðinu nýlega,að ríkisstjórnin hafi hafist handa við að finna bestu leiðir til að nýta náttúru okkar og auðlindir á þann hátt að komandi kynslóðir geti einnig notið þeirra og nýtt þær.Þetta eru góðar fréttir.Í stjórn verkefnastjórnar sem á að undirbúa gerð rammaáætlunar, hafa verið skipaðir valinkunnir vísindamenn auk fulltrúa hagsmunaaðila og umhverfissamtaka.Skýrslan á að vera tilbúin í júní 2009.
Nú verðum við bara að treysta því að þetta valinkunna lið sjái og skilji hvað er brýnast að leiðrétta í búsetu okkar á þessu landi sem er þekkt fyrir að vera verst farna land af búsetu sem þekkist.
Meira en helmingur af gróðurhulu landsins horfin,og restin öll í henglum,og þrátt fyrir þetta skammarlega ástands sem útlendum gestum blöskrar og er hvergi í samræmi við skyldur okkar við alþjóðlegar skuldbindingar.Þær miða fyrst og fremst að því að skaða ekki land með notkun,en það gerum við enn í dag með rányrkju blygðunarlaust án þess að skammast okkar,og treystum því að þeir komist ekki að skömminni.Þess í stað gortum við stanslaust eins og kjánar af því hvað við eigum hreint og ósnortið land og hvað hér sé allt til fyrirmyndar,bjóðum jafnvel fólki frá öðrum löndum að læra af okkur hvernig á að græða örfoka land,á það að vera brandari?Skyldi þeim vera sagt að okkar dýra og duglega landgræðsla vinni stöðuga bakkabræðra vinnu við viðgerðir á skemmdu landi með bitvargin á hælunum, á aðra milljón,svo stór hluti af ráðstöfunarfé hennar fer í endalausar varnar gaddavírsgirðingar ,og hún hafi hvergi undan eyðingaöflunum.Það er komin tími til að vekja athygli alþjóða náttúruverndarsamtaka á því, hvað hér er að gerast,svo við fáum áminningu annarra þjóða um það hvernig við förum með okkar eigið land.Þvílik skömm,en annað virðist ekki duga,til þess að létta þessum álögum eða svefndoða af þjóðinni.Fjallkonan í tötrum hrópar á hjálp!

Herdís Þorvaldsdóttir leikkona og fyrv.formaður Lífs og lands


EITT MESTA VANDAMÁL ÞJÓÐARINNAR.- gömul grein

,,Gróðureyðingin og uppblásturinn á landinu okkar er eitt mesta vandamál þjóðarinnar,” sagði Bjarni Bjarnason á almennum fræðslufundi í Mývatnssveit nýlega. Gróðureyðing herjar þar víða eins og á ótal öðrum svæðum og berst Landgræðslan  við uppblásturinn þar og stendur Landsvirkjun undir kostnaði landbóta í hreppnum. Landgræðslan hefur í 100 ár stöðugt barist við að gera við skemmdir á landinu vegna rányrkjubúskapar  í gegnum aldirnar og hefur hvergi undan.Forfeður okkar þekktu ekki annan búskap en að nýta það sem til var, án þess að gefa náttúrunni neitt í staðin. Njáll á Bergólfshvoli var hæddur af samferðamönnum sínum fyrir að bera skarn á tún sín.Vegna þessarar fáfræði fór sem fór að gróðurinn rýrnaði stöðugt.Í dag er aðeins tæplega helmingur gróðurhulunar eftir,sárin í landinu stækka stöðugt og skóg og kjarrlendi sem þakti 75% landsins er næstum horfið aðeins 1% eftir.Nú er ekki fáfræðinni fyrir að fara,og staðreyndirnar blasa við okkur og hættan á örfoki á stórum svæðum sem við ráðum ekki við.Runólfur Sveinsson sem var sandgræðslustjóri 1947-1954 segir í erindi sem hann flutti í útvarpi 1947”.Þegar við höfum komið búfjárrækt okkar allri í það horf að við þurfum ekki að misbjóða gróðri landsins með henni,þá er rányrkjan kvödd og landið fer ekki lengur í auðn af okkar völdum.Það er þó ekki nóg. Við verðum líka að bæta fyrir syndir forfeðrana og græða sár þau er nú standa opin og ógógróin víðsvegar um landið.Til þess þarf í fyrsta lagi friðun landsins.Ef reka á sauðfjárrækt hér á landi,sem ræktunarbúskap og ekki sem rányrkju og hálfgerðan hirðingjabúskap,þá þarf að hafa sauðféð í girðingum og einhverskonar og að einhverju leyti á ræktuðu landi “.Ttilv.lýkur.Þessi aðvörun kemur frá þeim manni sem best þekkti fátæklegt  ástand landsinns. Þetta var fyrir70 árum og síðan hefur landgræðslan barist vonlausri baráttu við að halda í við eyðingaröflin mest vegna lausagöngu búfjár,svo stór hluti af fjármagni hennar hefur þurft að fara í endalausar girðingar. Þetta eru svo fáránleg vinnubrögð í heila öld og svo fjárfrek að það er næstum ótrúlegt að annað eins skuli viðgangast enn í dag,þó við vitum af reynslunni að slíkt gengur ekki upp. Enginn virðist hafa kjark til að segja að það sé okkur til háborinnar skammar að láta éta undan okkur landið,og rýra stöðugt landgæðin fyrir afkomendur okkar,nú verði þegar í stað að girða af búfé í stað gróðursinns og fólksinns ,og gera síðan alvöru áætlun um hvernig sé hægt að græða upp sárin og stöðva uppblásturinn, ef það er ekki of seint.Ég skora á ykkur kjósendur í vor að gefa þeim flokki sem lofar að stöðva rányrkjuna álandinu og koma miðaldar búskap okkar í nútima ræktunarbúskap athvæði ykkar, því ekkert mál í dag er brýnna.Álverin sem stór hluti þjóðarinnar hefur eytt allri orku sinni í að fordæma sem eyðileggingu á landinu er aðeins smámál á móts við uppblásturinn.Álverin skapa þó tekjur og forða fólki annarstaðar á jörðinni frá miklu meiri mengun.Rányrkjan veldur einungis skaða og kostnaði og skemmt landið og sundurgrafin mýrarlönd fmamleiðir,mengun,koltvísýring út í andrúmsloftið, meiri en allur skipaflotinn. Vissuð þið þetta? Á þetta er aldrei minnst því það er okkur til skammar.Enn þann dag í dag blekkjum við okkur með því að við eigum hreint og ósnortið land,þvílík fáviska.  Herdís Þorvaldsdóttir, leikkona ogf.f. Lífs og Lands

Grein úr viðskiptablaðinu

grein úr viðskiptablaðinu

Offramleiðsla á kindakjöti - nýðsla á landinu.

Í fyrra haust var offramleiðslan 1000 tonn og í haust 1500 tonn.Slátrað verður 550 þúsund fjár sem gefa 8500 tonn af kjöti. Í sumar voru rúm milljón fjár nagandi viðkvæman gróður landsins, á lausagöngu frá fjalli til fjöru, þó mest á hálendinu og í stöðugt minnkandi fjallarindum sem smá hopa við það að nýgræðingur sem vex í köntunum er það sem féð sækist eftir.Ótaldir milljarðar fara í það að borga of mörgum sauðfjárbændum fyrir að rányrkja landið og í vor rétt fyrir kosningarnar, skaffaði Guðni fráfarandi landbúnaðarráðherra, þeim 16.000.000.000, styrk til meiri framleiðslu,og sjálfstæðisflokkurinn skrifaði undir af ótta við að missa atkvæði bændanna ef þeir samþyktu ekki. Hver borgar svo svona hrossakaup og meiri ofbeit og nýðslu á landinu, auðvitað við skattborgararnir. Við hefðum gjarnan viljað sjá peningana okkar fara í meiri landgræðslu, heilsugæsluna eða skólana þar sem allsstaðar er þörf á meiri peningum. Hagsmunir ráðamanna virðast ganga fyrir, því það var engin brýn þörf á þessum greiðslum. Sauðfjárbændur fá í beingreiðslur úr ríkissjóði einn miljarð og sex hundruð miljónir á ári sem skiptast á 1650 bændur, það gerir að meðaltali miljón á mann. Allir ráðunautar landbúnaðirinns eru á launum hjá ríkinu, félagsstarfsemi þeirra fær hálfan miljarð, tilraunabú eru rekin á kostnað ríkisins og svona mætti lengi telja. Er þetta ekki óréttlæti að hygla svona einni stétt atvinnurekenda? Þessu ástandi þarf að breyta. Eg sá í grein í blaði fyrir nokkrum árum, eftir einhvern hagfræðing að hver fjölskylda borgaði sem svarar 65000 kr. af sköttunum sínum bara í landbúnaðinn, það er sjálfsagt orðið meira í dag. Erum við sátt við svona fyrirkomulag, eiga ekki allar stéttir í þjóðfélaginu að njóta sömu réttinda? Þetta forréttinda fyrirkomulag landbúnaðins eru leifar frá þeim tíma þegar við vorum bændasamfélag og næstum allir þingmenn úr bændastétt.Þeir gátu því komið sínum hagsmunamálum í forgang.Í dag eru bændur aðeins lítið brot af þjóðinni, tæp 3000 með þeim sem stunda blandaðan búskap. Samt halda þeir öllum sínum forréttindum enn þann dag í dag m.a. þeim að rányrkja hverfandi gróður landsinns svo að landgræðslan hefur ekki við að lagfæra skemmdirnar. Þetta vitum við öll, hvernig getur þá á því staðið að þessum málum er ekki komið í nútíma horf eins og hjá öðrum siðmenntuðum þjóðum? Það er að hér verði stundaður ræktunarbúskapur með skepnur á ábyrgð eigenda sinna á eigin jörðum og e.t.v.völdum afgirtum beitarsvæðum á sumrin.                                       Þá yrði landnýðsla úr sögunni, með öllum þeim kostnaði og skömm sem henni fylgir í dag. Spyrji hver fyrir sig!

Þvílíkt blessað sumar hérna á suðvesturlandinu í þetta sinn,

 Ég man ekki eftir,á minni löngu ævi svona mörgum sólskinsdögum samfleytt.Ég var svo hrifin og þakklát, að það komst ekkert að hjá mér en að njóta þeirra til hins ítrasta.Svo mörg sumrin hefur maður lifað sem bókstaflega liðu hjá án þess að sólin gæti kíkt niður úr skýjaflókunum nema stutta stund í einu. Mér dettur í hug sagan um litla drenginn sem kom met foreldrum sínum frá Svíþjóð í heimsókn til afa og ömmu á Íslandi fyrir nokkrum árum. Þau voru búin að vera í 3 vikur þegar hann spurði mömmu sína, með tárin í augunum, mamma hvar er sólin? Á svona sólarlitlu landi eins og okkar eru sólskinsdagarnir svo verðmætir að alt annað verður að víkja til að geta notið þeirra, allt sem getur beðið gráu dagana.Nú fer að hausta og eftir sólríkt sumar erum við tilbúin til að takast á við verkefni sem voru í biðstöðu t.d.bloggið.Kæru landar, enn  tek ég til við að vekja athygli ykkar á hvað það er heimskulegt og kostnaðarsamt að stunda rányrkjubúskap með lausagöngu búfjár á okkar viðkvæma gróðurlendi, algerlega að óþörfu. Landgræðslan eltir uppi skemmdirnar og eyðir stórum hluta af því fé (okkar fé) sem henni er úthlutað til landgræðslu, í girðingar vegna bitvargsins sem eltir uppi allan nýgræðing.Í stað þess að vinna að því í samvinnu við bændur að minnka kjötframleiðsluna sem er stór fjárbaggi á ríkissjóði að ekki sé talað um gróðurskemmdirnar, fær framsóknaflokkurinn því framgengt rétt fyrir kosningarnar, áður en þeir misstu völdin að sauðfjárbændur fengju greitt úr ríkissjóði 16000000000 næstu 8árin í auka sposlu, til að styrkja framleiðslu sem er þegar of mikil Hvernig geta menn samviskulaust keypt atkvæði sín svona dýru verði á meðan ekki eru  til peningar í ótal brýn verkefni t.d heilbrigðismál saman ber aðhlynningu geðfatlaðra unglinga og fleira. Er okkur sama í hvað skattpeningarnir okkar fara.?Kæru landsmenn látið í ykkur heyra um þessi mál það má ekki dragast lengur að koma á nútíma búskaparlagi á þessu landi.Umhverfissinnar og gróðurvísindamenn frá öðrum löndum eru smásaman að komast að því hvernig við förum með landið, þó við þykjumst vera til fyrirmyndar og það verður okkur til skammar        Herdís Þorvaldsdóttir  leikkona og f.v. formaður Lífs og lands..   

Milljarða fjáraustur til styrktar ofbeitar

Enn einu sinni enn er gerður framleiðsluhvatningar samningur við sauðfjárbændur uppá milljarða úr ríkissjóði. Af hverju bara þessa kjötframleiðslu og til hvers? Það er spurningin! Framleiðsla á kindakjöti er þegar of mikil. 1000 tonn afgangs í haust sem kostar offjár að flytja út eða urða. Fyrir utan að það er hverfandi gróður landsins sem fer í allar þessar skepnur sem hafa að óþörfu nagað viðkvæman gróður allt sumarið. Við þetta bætist síðan viðgerða kostnaður landgræðslunar á skemmdu landi Margir sauðfjárbændur eru farnir að vinna önnur störf með sauðfjárræktinni. og gætu því minkað við sig og stundað ræktunarbúskap á sínum egin jörðum landinu og ríkissjóði til hagsbóta.Þá þyrfti ekki að borga þarflausa framleiðslu.
Hvernig bregst svo ríkisstjórnin við offramleiðslunni og öllum kostnaðinum sem af henni hefur hlotist í áratugi? Jú, hún gerir samning við bændur um enn meiri greiðslur úr ríkissjóði til aukinnar framleiðslu! Er einhver glóra í þessu!? Allir vita hvernig ástandið er í þessum málum. Guðni og landbúnaðarmafían gera allt sem þau geta til að hafa fé af skattborgurum til þess að þeir geti framleitt eins mikið og þeim dettur í hug án þess að þeir þurfi að bera kostnaðinn af umframframleiðslunni. Aftur á móti er það óskiljanlegt að fjármálaráðherra sem hlýtur að vita hvað lausaganga búfjár tekur mikin toll af gróðurríkinu á hverju ári, skrifi undir þennan milljarða samning án þess að setja skilyrði um að þeir beri sjálfir ábyrgð á offramleiðslunni. Lyktar þetta ekki af atkvæðakaupum bænda, rétt fyrir kosningar.

Rányrkjubúskapur á stórskemmdu landinu okkar

Það eru alltaf að koma fram nýjar og ógnvekjandi upplýsingar um það hvað við erum að gera landinu okkar næstum óbættanlegan skaða fyrir framtíðina og afkomendur okkar, með því að stunda rányrkjubúskap ennþá á stórskemmdu landinu.
Þröstur Eysteinsson skógfræðingur var að flytja erindi á Húsavík. Þar kom fram að þessar 1.000.000 kindur sem naga gróðurinn allt sumarið, éta þvílíka býsn að þær koma í veg fyrir gríðarlega upptöku kolefnis, sem gróið ósnortið land er vant að gera.Þetta kemur fram í rannsókn sem hann og Jón Guðmundsson eru að vinna á vegum Búnaðarháskólans.
Það er þegar vitað að koltvísýringurinn sem streymir upp úr ræstum mýrum og illa grónu og skemmdu landi, er á við mengun frá öllum skipaflotanum okkar.
Er þetta ásættanlegt ástand, þegar við þurfum ekki allar þessar skepnur? 1.000 tonn voru offramleiðsla í haust og þetta er gróður blæðandi landsins okkar. Og hvað er gert af stjórnvöldum til að koma í veg fyrir áframhaldandi skaða fyrir landið og ríkissjóð? Landbúnaðarráðherra skaffar sauðfjárbændum úr ríkissjóði 16 milljarða til að auka framleiðsluna. Ég skrifaði grein sem hét “Hversvegna tárfellir Fjallkonan alltaf 17.júní?” Hvað haldið þið?
“4-5 miljónir ha. gróðurlendisins er horfin og um leið jarðvegurinn, gróðurmoldin, okkar dýrmætasta eign. Nú verðum við að greiða skuldina við landið, og ákveða hvernig, en ekki hvort við gerum það”, skrifar Andrés Arnalds. “Tíminn skiptir máli, við verðum að sigrast á eyðingunni hraðar en eyðingaröflin vinna. Ella höfum við ekki undan og vandinn verður óviðráðanlegur.” Tilv.lýkur. Landgræðslan á 100 ára afmæli í ár. 1974 fékk hún svonefnda þjóðargjöf sem menn bundu miklar vonir við en hún er sögð hafa verið étin upp á nokkrum árum. Hvað fær Landgræðslan í 100 ára afmælisgjöf?
Eina vitið er: skepnur í girðingar, í staðinn fyrir gróðurinn og fólkið... Það er botninn í tunnuna. Og þá fyrst er hægt að gera heildar áætlun um hvernig við ræktum upp landið.

Landgræðslan og gaddavírsvæðingin

Ef landgræðslan þyrfti ekki að eyða stórum hluta af því fé sem hún fær úthlutað frá ríkinu, í endalausar girðingar þá hefði hún miklu meira fé til ráðstöfunar í sjálfa uppgræðslu landsins.Allir þessir milljarðatugir sem fara í endalaust óþolandi girðinganet um allt landið og meðfram öllum vegum er eingöngu nauðsynlegt vegna miðalda rányrkju búskaparhátta okkar með lausagöngu búfjár um landið.Er eitthvað vit í þessu? Með þeim skaða sem það veldur landinu að viðhalda þessum rányrkju miðalda búskap.Ráðleysi ráðamanna og eiginhagsmunir   bændastéttarinnar viðhalda þessu gamla úrelta kerfi, sem gengur stöðugt á landgæðin og kostar okkur offjár. Útgjöld ríkissjóðs til landbúnaðarins er svo ótrúleg að ég hef stundum líkt  því við kostnað annarra þjóða við herinn. Að girða af sauðfjárjarðirnar er eina vitið,og e.t.v.sumarbeitahólf á þar til völdum svæðum sem fjáreigendur bæru síðan ábyrgð á að væru ekki ofnýtt til skaða því það væri þeirra hagsmunamál.  Þá þyrfti engar aðrar girðingar,hvorki meðfram öllum vegum, sem er alger plága fyrir alla sem keyra um landið og geta á endanum hvergi stoppað nema við sjoppur eða bensínstaði. Þessar fangabúða girðingar borgum við skattborgararnir eingöngu vegna sauðfés bænda sem rásar stjórnlaust um landið.Sama er að segja um alla þá sem eru að vinna að uppgræðslu eða skógrækt þeir verða að víggirða svæðið fyrst. Er eitthvað vit í þessu,hvað finnst þér lesandi góður? Bara girðingakostnaður á ári kostar okkur 150 til 200 miljónir á ári (meðaltal síðustu 4ára) þessum peningum væri betur varið í það að girða af sauðfé í stað þess að girða okkur fólkið í landinu frá landinu og gera það lítt fýsilegt til ferðalaga..        Herdís Þorvaldsdóttir leikkona og fv formaður Lífs og lands..

Áratuga blekking og fjáraustur - gömul grein

               Loksins er búið að viðurkenna það opinberlega að útflutningur á kjötinu okkar til Bandaríkjanna borgar sig ekki. Af kröfu landbúnaðarforustunnar er búið að eyða tvöhundruð milljónum í þetta mislukkaða átak. Ráðinn var sölufulltrúi sem er búinn að fá 25 miljónir á ári í um það bil átta ár til að reyna að fá Bandaríkjamenn til að kaupa offramleiðsluna og borga fyrir hana sem lúxus vöru, sem við höldum að hún sé, af því að við höfum ekki haft annað val sjálf, fyrr en nýlega. Löngu var fyrirsjáanlegt að þetta var ekki hægt, það tók endalausan tíma, ótal ferðir til Bandaríkjanna með kokka héðan til að fá þá til að smakka og boðsferðir hingað til að telja þeim trú um að þessi afurð væri vistvænt framleidd sem var skilyrði af þeirra hálfu fyrir kaupunum. Þar hafa þeir verið vísvitandi blekktir. Fé sem alið er sumarlangt á viðkvæmum og rýrnandi úthaga og fjallagróðri landsins er ekki vistvæn afurð. Hún er rányrkja þar sem tekið er án þess að gefa í staðinn. Svona höfum við þrautpínt þetta blessaða land okkar í gegnum aldirnar, og gerum enn, því er gróðureyðingin jafn geigvænleg og óviðráðanleg í dag og dæmin sýna.Hvers vegna framleiða meira kjöt en við þurfum til innanlands neyslu þegar það veldur bæði ríkissjóði og landinu skaða? Til hvers eru stjórnvöld? Munu afkomendur okkar halda  að ráðamenn í dag hafi ekki verið með fulla rænu að taka ekki til hendinni þegar þeir sáu hvert stefndi með gróðureyðingu og uppblástur á landinu? Einu viðbrögðin eru endalaus fjáraustur í viðgerðir á  skemmdu landi, meðan náttúrulegi gróður landsins kjarr, lyng og blómgróður eru á undanhaldi. Það er ekki við landgræðsluna að sakast. Hún gerir allt sem hún getur við þessar vonlausu aðstæður til að geta haft undan eyðingaröflunum á meðan 1.000.000 fjár og tugþúsundir hesta nagar gróðurinn allt sumarið, stjórnlaust frá fjalli til fjöru. Einnig er hrossastóð á veturna á útigangi líka og krafsa þá og naga niður í rót til að fá eitthvað í svanginn, blessaðar skepnurnar. Ekkert ríki, a.m.k. í Evrópu, hefur farið eins illa með landið sitt og við, og erum við að verða fræg fyrir sinnuleysið og sofandaháttinn á því að viðurkenna ekki skömmina en velta bara vandanum, sem sífellt verður óviðráðanlegri, á herðar næstu kynslóða. Þvílíkt kjarkleysi ráðamanna! Hvenær birtist bjargvætturinn og hetjan sem minnst verður í sögunni um ókomna tíð? Herdís ÞorvaldsdóttirLeikkona og f.v. formaður Lífs og Lands

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband